Kynntu föt sem framlag

6. apr. 2010

Fyrir skemmstu hélt Heimilisiðnaðarfélagið útgáfuhóf vegna útgáfu ársritsins Hugar og handar. Þar kynnti handverksfólk, sem fjallað er um í nýjasta riti Hugar og handar, þau verkefni sem það vinnur að.

Þær Anna Jóna, Díana og Lizzi, sem allar eru í prjónahópi hjá Hafnarfjarðardeild, kynntu verkefnið föt sem framlag fyrir hönd Rauða krossins. Að þeirra sögn var útgáfuhófið hið áhugaverðasta og aðsókn mjög góð. Margir sýndu verkefninu föt sem framlag áhuga og runnu kynningarbæklingar um verkefnið út eins og heitar lummur.

Nú taka tuttugu og fimm deildir þátt í föt sem framlagi svo áhugasamir um allt land ættu að geta tekið þátt. Sjálfboðaliðar bæði prjóna og sauma fatnað fyrir börn á fyrsta ári. Nú í apríllok fer sending ungbarnapakka til Rauða krossins í Malaví og strax í kjölfarið hefst vinna við næstu sendingu.

Í Hafnarfirði hittist prjónahópur alla þriðjudaga kl. 13-15 í sjálfboðamiðstöðinni Strandgötu 24. Garn og efni auk saumavéla eru á staðnum en þátttakendur eru hvattir til að mæta með sína eigin prjóna. Einnig er hægt að fá garn og efni til að vinna með heima fyrir þá sem ekki komast á þriðjudögum. Hafðu samband í síma 565-1222 eða mættu á staðinn ef þú vilt vera með.

Nánari upplýsingar um verkefnið á landsvísu veitir Sólborg Alda Pétursdóttir í síma 570-4000.