Frásögn frá Jórdaníu

8. apr. 2010

Á spennandi vegabréfakvöldi unglingastarfs URKÍ-H um daginn kynntu systurnar Shirin Erla og Golnaz krökkunum heimaland sitt Jórdaníu.

Systurnar eru báðar búsettar í Hafnarfirði og hafa tekið virkan þátt í starfi Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins. Á vegabréfakvöldinu sögðu þær frá landinu sínu, matarmenningunni og hvernig var að búa í Jórdaníu. Þetta var í annað skipti sem Shirin mætir til að kynna ungu Rauða kross fólki landið sitt en áður hafði hún heimsótt krakkana í barnastarfinu. Margt áhugavert kom fram í máli þeirra systra og voru allir mun fróðari um þetta fjarlæga land eftir heimsóknina.

Vegabréfaverkefni URKÍ-H er hluti af fræðslustarfi sem unnið er í barna og unglingastarfi Rauða krossins. Þar fræðast krakkarnir um framandi lönd og menningu með það að markmiði að auka viðsýni sína og umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Ýmis lönd hafa verið kynnt frá því að verkefnið hófst eins og t.d. Svíþjóð, Palestína, Gambía og nú síðast Jórdanía.

Unglingastarfið fer fram einu sinni í viku á fimmtudögum kl. 17:30-19:00 og er ætlað ungu fólki á aldrinum 13-16 ára. Á miðvikudögum kl. 16:30-18:00 er boðið uppá starf fyrir 10-12 ára börn og einnig er starfandi hópur fyrir 16 ára og eldri. Starfið er opið öllum áhugasömum og ekki þarf að greiða nein þátttökugjöld.

Allar nánari upplýsingar um barna- og unglingastarf Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins veitir Kolbrún Guðmundsdóttir í síma 565-1222 eða í tölvupósti á kolbrung@redcross.is