Föt frá Álftanesi til Hvíta Rússlands

30. nóv. 2009

Álftanesdeild Rauða krossins og Félag eldri borgara á Álftanesi hafa unnið saman frá því í byrjun október að útbúa ungbarnapakka sem senda á með gámi til Hvíta Rússlands nú í desember.

Á milli 10-15 eldri borgarar hafa setið við að prjóna og sauma síðustu tvo mánuði og eins hefur verið leitað til foreldra barna á leikskólum á Álftanesi til að safna fötum sem einnig fara í gáminn.

Á föstudaginn komu saman allir þeir sem standa að verkefninu í Litla Koti húsnæði FEBÁ til að pakka fötunum í sérstaka poka til að afhenda þá til sendingar.

Vilborg Gunnarsdóttir stýrir starfi eldri borgara: „Síðasta vor heimsóttum við félagsstarf eldri borgara á Patreksfirði og sáum að þar var verið að vinna að fataverkefni fyrir Rauða krossinn. Við heilluðumst algjörlega og í framhaldinu hafði ég samband við Álftanesdeild Rauða krossins og bað um að fá kynningu á verkefninu. Helga Einarsdóttir formaður deildarinnar kom á okkar fund 3. október og sagði okkur frá neyðarbeiðni frá Hvíta Rússlandi. Eftir það var allt sett á fullan kraft, útvegað hráefni og hafist handa við handavinnuna, ýmist kemur fólk saman í húsnæði eldri borgara en aðrir senda okkur fullunnar vörur sem þeir gera heima,“ segir Vilborg. „Nú þegar við höfum gengið frá þessari sendingu sem telur 65 fatapakka höfum við ákveðið að yfir vetrarmánuðina verða hér eftir tveir dagar í mánuði helgaðir Rauða krossinum. Okkur fannst við tilneydd að svara neyðarkallinu frá Hvíta Rússlandi.“

Margrét Úlfarsdóttir er ein þeirra sem leggur verkefninu lið: „Við njótum þess virkilega að vinna að þessu verkefni því við vitum hvað það kemur að góðum notum. Það hafa allir eldri borgarar lagst á eitt að gera þetta vel úr garði.“

Formaður Álftanesdeildar Helga Einarsdóttir er mjög þakklát fyrir mjög gott samstarf við eldri borgara. Hún segir það ómetanlegt að finna gleðina og væntumþykjuna sem ríkir þar.

Álftanesdeild er ein af fjöldamörgum deildum sem tekur þátt í því að framleiða ungbarnapakka til Hvíta Rússlands, en neyðarbeiðni barst í október frá Rauða krossinum þar.