Rauði krossinn á umhverfisvaktinni

23. apr. 2010

Rauða kross deildin í Hafnarfirði hefur ásamt öðrum félagasamtökum í Hafnarfirði skrifað undir samning við Hafnarfjarðarbæ um umhverfisvaktina. Þetta er í þriðja skipti sem Hafnarfjarðarbær stendur fyrir umhverfisvaktinni og annað árið sem sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins taka þátt.

Verkefnið gengur útá það að félagasamtök taka hluta bæjarlandsins í fóstur og sjá um hreinsun á opnum svæðum fjórum sinnum á ári. Fyrsta tímabilið hefst þann 25. apríl, á degi umhverfisins, sem er fæðingardagur Sveins Pálssonar sem lauk prófi í náttúrufræði árið 1791, fyrstur Íslendinga.

Áherla er lögð á að hreinsa rusl og drasl á aðalstígum, með strandlengjunni, á náttúrulegum hraunsvæðum og opnum grænum rýmum. Eftir hreinsun sjá starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar um að safna saman pokum sem tínt hefur verið í og bærinn leggur félagasamtökunum til þóknun fyrir unnið verk.

Fyrsti hópur sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum sem fer á stjá eru þeir sem sjá um félagsstarf hælisleitenda. Þau hyggjast nýta greiðsluna frá bænum til að bjóða hælisleitendum í einhverja skemmtilega dagsferð.

Ungmennahreyfingin mun einnig taka þátt líkt og á fyrra ári og nýta greiðsluna í að efla ungmennastarfið.

Þátttaka í umhverfisvaktinni fellur einkar vel að umhverfisstefnu Rauða krossins og vitundarvakningu innan félagsins um mikilvægi umhverfismála.