Skrifað undir samning um Deigluna

29. apr. 2010

Í gær, miðvikudag, skrifuðu Hafnarfjarðar- og Garðabæjardeildir Rauða krossins undir samstarfssamning við sveitarfélögin Hafnarfjörð og Garðabæ um virkniúrræði í Deiglunni í bæjarfélögunum tveimur.

Markmiðið með rekstri Deiglunnar er að skapa vettvang fyrir atvinnuleitendur í Hafnarfirði og Garðabæ til sjálfseflingar og virkni í atvinnuleit. Boðið verður uppá námskeið og afþreyingu sniðna að þörfum atvinnuleitenda og með virkri þátttöku þess hóps sem vill nýta sér starfsemi Deiglunnar.

Starfsemin mun fara fram í sjálfboðamiðstöðvum beggja deilda, í Hafnarfirði að Strandgötu 24 og í Garðabæ á Garðatorgi.

Nýráðinn verkefnisstjóri Deiglunnar er Guðrún Ólafsdóttir, kjólameistari og viðskiptafræðingur. Guðrún hefur fjölbreytta starfsreynslu úr ýmsum áttum. Hún hlakkar til að vinna með fjölbreyttum hópi atvinnuleitenda og segir þátttöku þeirra sjálfra í starfsemi Deiglunnar vera grundvallaratriði.

Allar nánari upplýsingar um starfsemi Deiglunnar má fá í síma 565-1222.

Við bendum áhugasömum á að næstu viðburðir eru þjóðmálahópur sem kemur saman á Strandgötunni á morgun, föstudag kl. 10-12, og lismálunarhópur sem kemur saman á sama stað á mánudaginn kl. 9:30. Allir áhugasamir eru boðnir velkomnir til þátttöku í þessum viðburðum.