Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

18. maí 2010

Á aðalfundi Rauða kross Íslands þann 15. maí skrifuðu deildir á höfuðborgarsvæðinu undir nýjan samstarfssamning um neyðarvarnir. Samningurinn fjallar um markmið og skyldur neyðarnefndarinnar á höfuðborgarsvæðinu en neyðarnefndinni er ætlað að samhæfa neyðarvarnastarf deildanna á svæðinu. Þetta er í annað skipti sem slíkur samningur er undirritaður en sá fyrri er frá árinu 2005.

Samstarf deildanna hefur reynst vel og það hefur sýnt sig að deildirnar ná meiri árangri saman í neyðarvörnum en hver í sínu lagi.  Í nýja samningnum er gert ráð fyrir stofnun skyndihjálparhóps sem mun líta dagsins ljós á næsta ári. Fyrir er starfandi viðbragðshópur neyðarnefndarinnar sem sinnir neyðaraðstoð vegna atburða utan almannavarnaástands.

Neyðarnefndina á höfuðborgarsvæðinu skipa Gísli Friðriksson formaður, Kjósarsýsludeild, Ingibjörg Bjartmars, Kópavogsdeild, Helgi Ívarsson, Hafnarfjarðardeild, Birgir Freyr Birgisson, Reykjavíkurdeild, Ása Lind Finnborgadóttir, Garðabæjardeild og Garðar Agnar Garðarsson, Álftanesdeild. Unnur Hjálmarsdóttir, Reykjavíkurdeild og Sigrún Hjörleifsdóttir,  Kópavogsdeild eru varamenn.