Grill og gleði

29. ágú. 2010

Það var vaskur hópur sjálfboðaliða Hafnarfjarðardeildar sem mætti á umhverfisvaktina síðastliðið fimmtudagskvöld. Líkt og áður sá Rauði krossinn um að fegra umhverfið í miðbænum og var gengið um helstu göngustíga og útivistarsvæði og nokkuð magn af rusli tínt upp.

Markmið umhverfisvaktarinnar er tvíþætt, annars vegar að fegra bæjarlandið og okkar nánasta umhverfi og hins vegar að vekja almenning til umhugsunar um góða umgengni og mikilvægi þess að henda ekki frá sér rusli. Það voru sjálfboðaliðar á öllum aldri sem tóku þátt, allt frá þriggja ára og upp í ellilífeyrisþega, og voru allir kátir eftir hressandi umhverfisgöngu.

Að tiltekt lokinni var boðið til grillveislu í sjálfboðamiðstöðinni og skemmtu sjálfboðaliðarnir sér vel í fjörugu borðhaldi.

Hafarfjarðardeildin þakkar öllum þeim sjálfboðaliðum sem lögðu henni lið á þessari umhverfisvakt. Sjáumst svo hress á síðustu umhverfisvaktinni í október.