Öflugir ungir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar halda fatamarkað

17. mar. 2011

Ungir sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi Rauða krossins í Kópavogi fyrir 16-24 ára, hafa unnið að margvíslegum verkefnum undanfarin ár og haft áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti. Hægt er að taka þátt í ýmsum hópum innan Plússins líkt og stýrihópi, hönnunarhópi og fræðsluhópi.

Meðal verkefna sem Plúsinn hefur staðið að eru alþjóðleg kaffihúsakvöld, forvarnarfræðsla, viðburðir og fjáraflanir en undanfarna daga hafa þeir verið að undirbúa sinn árlega fatamarkað til styrktar góðu málefni.

Að þessu sinni verður markaðurinn haldinn laugardaginn 19. mars nk. kl.12-16 í Molanum, Ungmennahúsi Kópavogs að Hábraut 2. Þar verða seld notuð föt á mjög vægu verði auk þess sem heitt kaffi verður á könnunni. Á staðnum verður einnig ungt fólk frá Alþjóðatorgi ungmenna með ,,Lifandi bókasafn”.

Allur ágóði markaðarins mun renna til uppbyggingarverkefna Rauða krossins til hjálpar börnum sem enn búa við neyð á Haítí eftir hamfarirnar þar fyrir rúmu ári. Full þörf er á áframhaldandi stuðningi við verkefnið.

Á markaðinum gefst fólki tækifæri til að gera góð kaup og styrkja góðan málstað í leiðinni.