Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins í heimsókn hjá slökkviliðinu

2. maí 2011

Sjálfboðaliðar í viðbragðshóp höfuðborgarsvæðisins heimsóttu slökkviliðið í síðustu viku. Hópurinn vinnur náið með slökkviliðinu á vettvangi og mikilvægt að báðir aðilar séu meðvitaðir um störf hvers annars. Þó nokkrir nýliðar voru í hópnum ásamt þaulreyndum sjálfboðaliðum viðbragðshópsins.

Gestgjafarnir tóku að vonum vel á móti sjálfboðaliðunum og byrjuðu á að sýna slökkvibíla og sjúkrabíla. Það tókst þó ekki betur en svo að í upphafi kynningar var slökkviliðið og sjúkrabílar kallaðir út og sjálfboðaliðarnir urðu því af tækjakynningunni.

Viðbragðsaðilar í neyð bera þó nafn með réttu og því var boðið upp á kaffi á kaffistofunni og málin rædd við samstarfsaðilana í staðinn. Birgir Finnsson og Marteinn Geirsson frá slökkviliðinu töluðu um mikilvægi þess að halda samstarfinu áfram og lýstu ánægju sinni með starf Rauða krossins á vettvangi. Sjálfboðaliðunum gafst þarna alveg óvænt mjög góður tími til að spyrja varaslökkviliðsstjóra um starfið á vettvangi og rætt var um hvernig bæta og auka mætti farsælt samstarf.

Að loknu spjalli var skoðunarferð um alla stöðina, þar á meðal í samhæfingarmiðstöðina, líkamsræktarsal slökkviliðsins og neyðarlínuna. Auk þess var búnaður reykkafara skoðaður og þyngdin prófuð.

Heimsókn viðbragðshópsins er liður í símenntunarferli sjálfboðaliða og gefur þeim kost á að hittast, ræða málin og kynnast betur utan útkalla.

Viðbragðshópur höfuðborgarsvæðisins bregst við neyð utan almannavarnaástands og er kallaður út þegar um t.d. bruna er að ræða þar sem sjálfboðaliðarnir sinna óslösuðum á vettvangi. Í hópnum eru að jafnaði 24 einstaklingar sem eru á vakt eina viku í senn og geta þá verið kallaðir út hvenær sem er sólarhringsins.