Taktu til, farðu í sund og hjálpaðu Rauða krossinum í leiðinni

1. jún. 2011

Rauði kross Íslands stendur fyrir fatasöfnun um allt land á uppstigningardag, fimmtudaginn 2. júní, í samstarfi við Eimskip. Gámum verður komið fyrir við allar sundlaugar ÍTR í Reykjavík og við sundstaði í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.  Einnig verður gámur við hús Rauða krossins í Mosfellsbæ, og  eins verður tekið á móti fötum á móttökustöðum Eimskips Flytjanda úti á landsbyggðinni.

Rauði krossinn hvetur fólk að taka til gömul föt og vefnaðarvöru og koma þeim í notkun að nýju með því að nýta ferðina um leið og farið er í sund í góða veðrinu. Athugið að söfnunin er aðeins þennan eina dag við sundstaðina, en auðvitað er hægt að gefa fatnað og klæði allan ársins hring á söfnunarstöðum Rauða krossins á Enduvinnslustöðvum  Sorpu á höfuðborgarsvæðinu og í söfnunargáma um allt land.

Fólki er bent á að nota tækifærið í vorhreingerningunni og koma með gömlu fötin, skóna, handklæði, rúmföt, gluggatjöld og jafnvel stöku sokkana því mikil verðmæti eru fólgin í allri vefnaðarvöru.

Árlega er um þúsund tonn af fötum og klæði urðuð hérlendis. Þessu öllu væri hægt að koma í endurvinnslu og skapa um leið tekjur fyrir Hjálparsjóð Rauða krossins.

Með því að gefa fatnað leggur fólk Rauða krossinum lið og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis. Fatnaði er úthlutað til berskjaldaðra um allt land og til aðila erlendis, og hann er til sölu í Rauðakrossbúðunum. Það sem ekki nýtist beint sem fatnaður er selt til endurvinnslu og þess vegna kemur öll vefnaðarvara að notum.

Þetta átak er samstarfsverkefni Rauða krossins og Eimskips sem er öflugasti stuðningsaðili Fatasöfnunar Rauða kross Íslands.