Rauðakrosshúsin - virknisetur fyrir atvinnulaust fólk

6. jún. 2011

Rauði krossinn stendur fyrir öflugri þjónustu fyrir þá sem eru berskjaldaðir í íslensku samfélagi. Félagið leggur áherslu á að veita þá aðstoð sem mest þörf er fyrir á hverjum tíma. Deildir félagsins hafa sett á laggirnar verkefni sem miða að því að virkja fólk og rjúfa félagslega einangrun nú þegar þúsundir landsmanna glíma við atvinnuleysi og fjárhagsörðugleika.

Rauðakrosshúsin
Rauðakrosshúsið í Borgartúni í Reykjavík fagnaði eins árs starfsafmæli í mars. Starfsemin byggir á reynslu Rauða krossins af því að bregðast við áföllum og frá upphafi hafa gestir hússins sótt þangað sálrænan og félagslegan stuðning og ráðgjöf um ýmis úrræði í samfélaginu.

Sams konar virknimiðstöðvar voru svo opnaðar síðasta haust í Kópavogi og Mosfellsbæ undir merkjum Rauðakrosshúss, en í Hafnarfirði kallast úrræðið Deiglan og í Grundarfirði Vinahúsið Grund. Miðstöðvarnar eru sérstaklega hugsaðar sem vettvangur fyrir atvinnuleitendur til að halda sér virkum í samfélaginu meðan á leit að nýrri atvinnu stendur.

Í Rauðakrosshúsunum er öflugt félagsstarf og fræðsla þar sem í boði eru námskeið, tómstundaiðja og félagsskapur, og þar er fólk hvatt til að þróa og skapa sín eigin verkefni sem nýtast öðrum. Ýmsir sérfræðingar koma að starfseminni, svo sem atvinnumálafulltrúar, sálfræðingar, lögfræðingar og prestar/djáknar þjóðkirkjunnar en líkt og í öðrum verkefnum Rauða krossins bera sjálfboðaliðar starfið uppi. Um 100 einstaklingar sækja Rauðakrosshúsin á hverjum degi.

Rauðakrosshúsið í Reykjavík, Borgartúni 25, er opið virka daga 13-16. Síminn 545 0410 er opinn 9-16, raudakrosshusid@redcross.is, raudikrossinn.is/reykjavik.

Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, er opið mánudaga, þriðjudaga og föstudaga 11-15. Sími 554 6626, kopavogur@redcross.is, raudikrossinn.is/kopavogur.

Rauðakrosshúsið í Mosfellsbæ, Þverholti 7, opið þriðjudaga og fimmtudaga 10-14 og miðvikudaga 13-16. Sími 564 6035, kjos@redcross.is, raudikrossinn.is/kjos. Lokað verður frá 10. júní – 22. ágúst.

Deiglan í Hafnarfirði, Strandgötu 24, opið mánudaga, miðvikudaga og föstudaga 10-14. Sími 565 1222, deiglan@redcross.is, raudikrossinn.is/hafnarfjordur.

Vinahúsið Grund tók formlega til starfa í byrjun desember 2009 og er það staðsett í verkalýðshúsinu að Borgarbraut 2 í Grundarfirði

Á vefsíðu Rauðakrosshúsanna er birt dagskrá í viku hverri.