Þjóðlandakvöld á Alþjóðatorgi ungmenna

9. jún. 2011

Alþjóðatorg ungmenna er nýtt verkefni sem Reykjavíkurdeild Rauða krossins hefur sett á laggirnar. Þjóðlandakvöld er eitt af því sem á dagskránni verður og var það fyrsta haldið um síðustu helgi. Þemað að þessu sinni var Litháen og var boðið uppá litháenska ljúffenga rétti, tónlist og dansa.

Markmiðið með stofnun verkefnisins er að vinna gegn fordómum og rasisma í íslensku þjóðfélagi, virkja ungt fólk af erlendum uppruna í félagsstarfi og sem málsvarar, fræða um menningarlega fjölbreytni, skapa félagslega samtöðu og vinna að umburðarlyndi.

Alþjóðatorg ungmenna hefur hlotið styrk frá Evrópu unga fólksins til þess að halda slíkar uppákomur. Verkefnið felst í því að virkja ungt fólk af erlendum uppruna á Íslandi til þess að halda þjóðlandahátíðir. Hver þjóðlandahátíð mun einblína á eitt land eða landsvæði en tilgangur verkefnisins er að virkja fleira ungt fólk af erlendum uppruna til þess að taka þátt í því að skipuleggja hátíðirnar með Rauða krossinum. Á hátíðunum verður menning þjóðlandsins kynnt með matarsmakki, tónlist, leikjum sem styðja við fjölmenningu, búningum, skreytingum og skemmtilegum staðreyndum.