Ungir sjálfboðaliðar stóðu fyrir söfnun til styrktar Japans

10. jún. 2011

Elvar Bragi Bjarkason, sjálfboðaliði Kópavogsdeildar Rauða krossins, stóð fyrir söfnun þar sem hann og samnemendur hans úr Menntaskólanum við Hamrahlíð söfnuðu pening til styrktar bágstöddum í Japan. Fleiri sjálfboðaliðar úr Plúsnum, ungmennastarfi deildarinnar, tóku einnig þátt í söfnuninni.

Unga fólkið hélt tónleika ásamt því að selja kökur og handgerða hluti í Smáralind. Þá gengu sjálfboðaliðarnir um með bauka og dreifðu bankanúmeri fyrir þá sem vildu gefa til söfnunarinnar.

Afraksturinn lét ekki á sér standa og söfnuðust alls 150 þúsund krónur sem munu renna óskertar til styrktar Japans. Fjárhæðin verður nýtt til að styðja þá sem urðu fyrir miklum búsifjum á hamfarasvæðunum en Rauði krossinn vinnur nú að enduruppbyggingu og tekur meðal annars þátt í að koma fólki úr neyðarskýlum yfir í bráðabirgðahúsnæði.

Ungir sjálfboðaliðar láta gott af sér leiða.

Kópavogsdeild þakkar Elvari og öllum þeim ungu sjálfboðaliðum sem að verkefninu stóðu kærlega fyrir frábært framtak og góðan hug.