Aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna

16. jún. 2011

Útkall barst frá Neyðarlínunni rétt fyrir klukkan tvö í nótt og óskað eftir aðstoð Rauða krossins vegna húsbruna í fjölbýlishúsi við Skúlagötu.

Fjórir sjálfboðaliðar viðbragðshóps höfuðborgarsvæðis mættu á vettvang með sérútbúinn bíl þar sem íbúar fengu skjól og sálrænan stuðning. Ekki þurfti að útvega fólki gistingu þar sem íbúar fengu inni hjá ættingjum og vinum.

Rauði krossinn verður í sambandi við íbúana næstu daga og aðstoðar ef á þarf að halda. Þeir sem telja sig þurfa frekari aðstoð geta haft samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717.