Met slegið í gerð ungbarnapakka

30. ágú. 2011

Í síðustu viku vann prjónahópur Hafnarfjarðardeildar að því að pakka afrakstri vorsins og sumarsins í ungbarnapakkagerðinni. Alls var pakkað í 55 pakka og því ljóst að hópurinn hefur slegið met sitt í fjölda pakka frá fyrra ári. Árið 2010 útbjó hópurinn alls121 pakka en eftir síðustu pökkun er talan fyrir árið í ár komin í 162. Því er ljóst að mun fleiri pakkar verða útbúnir á þessu ári en í fyrra.

Prjónahópurinn vinnur í verkefni sem kallast föt sem framlag. Í því verkefni eru einnig nokkrar liðtækar saumakonur sem sauma ungbarnafatnað einkum úr flísefnum en einnig úr öðrum efnum sem þykja henta fyrir ungabörn. Hægt er að taka þátt bæði með því að mæta í vikulega hittinga prjónahóps á þriðjudögum kl. 13 og einnig með því að vinna heima. Þannig eiga allir áhugasamir að geta fundið flöt á þátttöku í verkefninu.

Nýlega hóf Rauði kross Íslands einnig að útbúa fatapakka fyrir eldri börn, frá 1 árs til 12 ára. Verða þeir pakkar sendir til Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi en ungbarnapakkarnir fara bæði til Hvíta-Rússlands og Malaví.

Ef þú vilt fá nánari upplýsingar um verkefnið hafðu samband í síma 565-1222, kíktu við á þriðjudegi eða sendu okkur póst á hafnarfjordur@redcross.is