Árið 2011 mikið annaár hjá skyndihjálparhópi höfuðborgarsvæðis

23. apr. 2012

Árið 2011 sinnti Skyndihjálparhópur Rauða krossins í Reykjavík sjúkragæslu á samtals 27 framhaldsskólaböllum. Að meðaltali voru fimm sjálfboðaliðar á hverju balli en flest böllin voru haldin á skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll. Algengast var að dansleikirnir voru frá klukkan 22:00 til 01:00 en lengur ef um árshátíð skólans var að ræða. Hópstjórar skyndihjálparhópsins Arna Garðarsdóttir og Anna Eir Guðfinnudóttur segja að samstarfið við nemendafélögin, kennara og skóla hafi gengið vel og flestir nemendur vera til fyrirmyndar.

Aukin neysla ólöglegra vímuefna hefur vakið athygli hópsins en sú þróun kallar á endurmat í þjálfun sjálfboðaliða skyndihjálparhópsins og aukna fræðslu. Reynsla hópsins byggist að miklu leiti á áfengisneyslu ungmenna en ekki ólöglegum vímuefnum.

Skyndihjálparhópur Rauða krossins er öflugt fjáröflunar- og forvarnarverkefni sem vinnur að einu af meginverkefnum hreyfingarinnar sem er að útbreiða skyndihjálp.