Sumarið á næsta leiti – Gleðidaganámskeið framundan

24. apr. 2012

Barnavinafélagið Sumargjöf styrkir Rauða krossinn um 500.000 kr. til að auðvelda deildum að bjóða fjölskyldum uppá hið vinsæla námskeið Gleðidaga, þátttakendum að kostnaðarlausu. 

Námskeiðin Gleðidagar, hvað ungur nemur gamall temur, eru fyrir aldurshópinn 7 – 12 ára og hafa verið haldin á vegum Rauða krossins hvert sumar eftir efnahagshrunið eða frá árinu 2009.

Aðal leiðbeinendur á námskeiðunum eru eldri borgarar sem miðla af reynslu sinni og þekkingu til barnanna en með því er unnið markvisst að því að tengja saman kynslóðir. Fjölbreytt og spennandi  dagskrá er bæði inni og úti. 

Í sumar verða Álftanes- og Kjósarsýsludeildir Rauða krossins með tvö námskeið hvor, nánar auglýst á vef Rauða krossins og í staðarblöðum fljótlega. Styrkurinn frá Sumargjöf kemur að mjög góðum notum og færir Rauði krossinn félaginu kærar þakkir fyrir.