Ársskýrsla 2004

Lindu Ósk Sigurðardóttur

6. maí 2005

Svæðasamstarf deilda á höfuðborgarsvæði er myndað af sex deildum: Kjósarsýsludeild, Reykjavíkurdeild, Kópavogsdeild, Garðabæjardeild, Álftanesdeild og Hafnarfjarðardeild. Í svæðisráði á höfuðborgarsvæði eru fulltrúar allra deilda auk fulltrúa URKÍ sem situr fundi með málfrelsi og tillögurétt.

Formaður svæðisráðs er Sigrún Jóhannsdóttir, formaður Álftanesdeildar. Guðrún Mjöll Sigurðardóttir Kópavogsdeild lét af formennsku svæðisráðs á svæðisfundi deilda sem haldinn var 9. október 2004 á Álftanesi. Svæðisráð fundar einu sinni í mánuði eða fyrsta mánudag hvers mánaðar kl. 17:15 og eru fundirnir haldnir á svæðisskrifstofu.

Svæðisskrifstofa Rauða kross Íslands á höfuðborgarsvæði er staðsett í húsnæði Hafnarfjarðardeildar og er nú til húsa að Strandgötu 24, Hafnarfirði. Svæðisskrifstofan flutti af Bæjarhrauni 2, Hafnarfirði í apríl 2004.

Fataflokkun
Deildir á svæðinu reka í sameiningu fataflokkunarmóttöku sem staðsett er að Gjótuhrauni 7, Hafnarfirði. Fatnaðurinn berst að mestu leyti til Rauða krossins gegnum endurvinnslustöðvar Sorpu og eru gámar merktir Rauða krossinum á öllum endurvinnslustöðvunum.

Alls söfnuðust um 790 tonn af fatnaði á árinu og fóru um 60 gámar í sölu til kaupenda í Hollandi, Þýskalandi og Lettlandi.

Úthlutun innanlands var um 10 tonn og nutu um 1260 einstaklingar góðs af því og þar að auki fengu Fangelsismálastofnun, Neyðarmóttaka spítalanna, Víðines, Arnarholt og leikfélög aðstoð frá fataflokkun.

Fatasöfnun fyrir Kabúl var haldin og var lögð áhersla á að safna yfirhöfnum og öðrum hlýjum fatnaði. Send voru 10 tonn af flokkuðum fatnaði til Kabúl í maí.

100 kg. af fatnaði fara vikulega í verslunina L12 sem er verslun með notaðan fatnað að Laugarvegi 12. Sjálfboðaliðar sjá um afgreiðslu og er verslunin opin alla virka daga frá kl. 10-17:30 og á laugardögum frá kl. 10-14 en er þá í umsjón sjálfboðaliða frá Urkí. Verslunarstjóri í L12 í 50 % starfi er Guðrún Sigurjónsdóttir. Starfsmaður fataflokkunar að Gjótuhrauni er Ólafur Árnason í 100 % starfi. Verkefnisstjóri URKÍ er Jens Ívar Albertsson.

Tekjuhagnaður fataflokkunar fyrir árið 2003, 5 milljónir króna var afhentur Hjálparsjóði Rauða kross Íslands við formlega opnun á nýju húsnæði fataflokkunar að Gjótuhrauni 7, Hafnarfirði þann 5. júní 2004.

Fræðsla í skóla á svæðinu
Elín Eiríksdóttir var verkefnaráðin annað árið í röð til að fara með fræðslu um Rauða krossinn í alla grunnskóla á svæðinu. Heimsótti hún 8. bekki þetta árið alls 33 skóla, 82 bekki eða um 1600 nemendur. Lögð var áhersla á að fræða krakkana um mannúð og hlutleysi, stöðu og verk okkar á stríðstímum auk þess sem Hjálparsíminn 1717 og Ef bara fræðsluefnið var kynnt.

Sumarbúðir
Deildir á höfuðborgarsvæðinu ráku sumarbúðir í Þórsmörk ásamt deildum á Suðurlandi / Suðurnesjum. Námskeiðin voru fjögur fyrir krakka á aldrinum 12-14 ára og er áherslan á þessum námskeiðum landgræðsla, skógrækt, gönguferðir, skyndihjálp og ólíkir menningarheimar.

Sumarbúðir að Löngumýri fengu styrk til reksturs að upphæð kr. 500.000. 60% þátttakenda á Löngumýri sumarið 2004 komu af höfuðborgarsvæðinu.

Athvörf
Vin, Dvöl og Lækur, athvörf fyrir geðfatlaða fengu hvort 50.000 króna styrk til ferðalaga fyrir gesti sína.

Könnun á stöðu geðfatlaðra
Könnun á stöðu geðfatlaðra fór af stað á árinu og er þarfagreiningin unnin af Páli Biering lektor og geðhjúkrunarfræðingi. Páll mun kynna niðurstöður sínar fyrri hluta ársins 2005.

Fjölsmiðjan, verkþjálfunar- og framleiðslusetur
Deildir greiddu kostnað vegna nema á aldrinum 16-18 ára. Fóru 10% af kassatekjum deilda í þann rekstur. Fulltrúi deilda í stjórn Fjölsmiðjunnar er Reynir Guðsteinsson Kópavogsdeild og varamaður hans Ólafur Reimar Gunnarsson Garðabæjardeild.

Námskeið
Haldin voru fjögur „Mannúð og menning” námskeið í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópavogi og Hafnarfirði, alls sóttu þau 39 krakkar. Fyrir sjálfboðaliða voru haldin fjögur grunnnámskeið og eitt deildarnámskeið.

Flugslysaæfing
Allar deildir á svæðinu tóki þátt í æfingu sem haldin var fyrir Reykjavíkurflugvöll og reyndi þá vel á samvinnu deilda varðandi neyðarvarnir. Sjálfboðaliðar frá öllum deildum tóku þátt í æfingunni.

Á svæðisfundi var ákveðið að efla samvinnu deilda varðandi neyðarvarnir og var ákveðið að koma af stað vinnuhópi sem hefði það hlutverk að skoða neyðarvarnamálin í heild sinni. Vinnuhópurinn er tekinn til starfa og mun hann skila niðurstöðum sínum fljótlega.