Að ganga í óstraujaðri flík er ósómi í Gambíu

Fréttablaðið

15. nóv. 2007

María Guðrún Gunnlaugsdóttir sjálfboðaliði URKÍ-R fór til Gambíu og starfaði með vinadeild Reykjavíkurdeildar í Banjul. Fréttablaðið tók viðtal við Maríu sem birtist þann 17. október síðastliðinn.

María Guðrún Gunnlaugsdóttir dvaldi í Gambíu í sumar í sex vikur á vegum vinadeildarstarfs Rauða krossins og hefur frá mörgu að segja.

„Mannlífið í Gambíu er skrautlegt og skemmtilegt. Þar býr ótrúlega lífsglatt fólk og vinalegt þótt landið sé meðal þeirra tíu fátækustu í heiminum. Krakkarnir elska tónlist og eru alltaf dansandi og hlæjandi og maður dansar ósjálfrátt með," byrjar María Guðrún frásögn sína.

María Guðrún er 22 ára guðfræðinemi og kveðst hafa kynnst Rauða krossinum í gegnum sjálfboðaliðastarf. "Ég sótti um að verða partur af vinadeildarsamstarfi og var valin til að fara út til Gambíu í ungmennaskipti, ásamt strák sem heitir Bryan Allan Smith. Við bjuggum hjá gambískri fjölskyldu og unnum í sumarbúðum á vegum Rauða krossins. Það var mjög gaman að kenna krökkunum íslenska söngva og bralla fleira skemmtilegt með þeim. Svo sagði ég þeim frá Íslandi og hélt kynningar á landinu mínu."

María Guðrún segir flesta krakkana í Gambíu kunna ágæta ensku en hún hafi líka komist talsvert inn í tungumál innfæddra. „Ég komst fljótt upp á lag með að segja einfaldar setningar eins og „ég er svöng", „takk fyrir" og fleira. En maður má ekki ruglast. „Mangimar" þýðir til dæmis ég er þyrst en „mangimer" þýðir ég er reið!

Þótt skordýrin skríði um allt í Gambíu segir María metnað lagðan í hreinlæti. „Það er allur þvottur handþveginn og mikið lagt upp úr því að allt sé straujað. Ef manneskja er úti á götu í óstraujaðri flík þá er það mikill ósómi," lýsir hún. Síðan bregður hún upp mynd úr heimilislífinu þar sem systkinin voru fimmtán og ávallt nokkur nágrannabörn í heimsókn. „Ég sat einu sinni uppi í rúminu mínu með stelpurnar allar í kringum mig og var að syngja fyrir þær Krummi krunkar úti. Þá spurðu þær hvort ég kynni ekki lög úr myndinni The Princess Diaries og fóru að syngja þau fyrir mig. Þær eru múslimar og eru alltaf með blæjur. Mér fannst fyndið að þær kynnu lögin úr þessari vestrænu mynd en ekki ég."

Regntíminn gekk yfir á meðan María Guðrún var úti og segir hún stundum hafa hellst hressilega úr loftinu. „Það flæddi yfir allt. Þá var steinum hlaðið upp með veggjunum til að labba á."

Að lokum lýsir hún komu sinni til James-eyjar sem hún segir sögulegan stað og mikilvægan í þrælastríðinu. „Allir þrælarnir sem voru fluttir frá Afríku stoppuðu þar og á eynni er safn sem lýsir þeirri sögu. Maður fékk í magann. Þarna voru krakkar hlaupandi á eftir mér hrópandi „tu bab" sem þýðir „hvíti maður" því það er mjög sjaldgæft að sjá hvíta manneskju þarna úti. Ég hrökk í kút því ég mundi oft ekki sjálf að ég væri hvít. Fólkið tók mér svo opnum örmum að ég gleymdi að ég var öðruvísi en það."