Ertu með eitthvað gott á prjónunum?

9. okt. 2012

Á hverjum þriðjudegi hittist hópur sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum í Hafnarfirði og prjónar, heklar eða saumar saman. Verkefnið sem þau taka þátt í heitir föt sem framlag og miðar að því að útbúa fatnað í ungbarnapakka sem sendir eru til Hvíta-Rússlands.

Ef þú hefur áhuga á að taka þátt þá hvetjum við þig til að mæta í Rauðakrosshúsið að Strandgötu 24 (gengið inn frá Fjarðargötu) einhvern þirðjudaginn kl. 13.

Alltaf rjúkandi kaffi á könnunni og góður félagsskapur.

Við tökum einnig á móti garni og efnum sem henta í barnafatnað. Ef þú átt umfram garn eða efni geturðu komið því til okkar á Strandgötu 24. Við sjáum til þess að garnið og efnið nýtist í fallegan barnafatnað sem fer til hjálparstarfs.

Allar nánari upplýsingar í síma 565-1222