Endurbætt húsnæði Rauða krossins í Reykjavík

18. des. 2013

Föstudaginn 13 desember s.l. tók Rauði krossinn í Reykjavík í notkun endurbætt húsnæði að Laugavegi 120, þ.e.a.s. fjórðu og fimmtu hæð. Um er að ræða talsverðar breytingu á húsakynnum deildarinnar en þar má helst nefna að samkomusalurinn hefur verið færður niður af fimmtu hæð og á þá fjórðu þar sem aðgengi fatlaðra er með besta móti.

Í tilefni þessa var boðið til aðventustundar þar sem formaður Rauða krossins í Reykjavík, Jón Þorsteinn Sigurðsson þakkaði þeim sjálfboðaliðum sem komu að verkinu og bauð fólk velkomið. Þá sagði hann sjálfboðaliða eiga heiðurinn af starfi Rauða krossins í Reykjavík og bætti við...:
„Eitt af grundvallarmarkmiðum Rauða krossins er sjálfboðið starf. Starf sem ber uppi hreyfinguna um allan heim á hjálparstarfi sem  lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon. Rauði krossinn í Reykjavík er partur af landsfélagi Rauða krossins og ein af 44 deildum sem mynda Rauða krossinn á Íslandi. Saman myndum við hina mikilvægu, jafnframt eitt af grundvallarmarkmiðum Rauða krossins, einingu sem vinnur um allt land að því að bæta samfélagið í kringum okkur og vera viðbúin að aðstoða þegar þörf er á.“

Þá sagði Jón einnig: „...þetta húsnæði sem við nú stöndum í var ekki reist  á einum degi og ekki af einum manni. Margar hendur lögðust á eitt og ber að þakka þeim öllum það ómetanlega framlag bæði iðnaðarmönnum, Magnús [S. Ingibergsson] sem var eins og klettur hér og stýrði harðri hendi sínum mönnum, arkitektinum sem teiknaði þessa aðstöðu fyrir okkur og liðsinnti okkur um þessa frábæru hönnun, þakka ég fyrir frábært verk. Starfsmönnum deildarinnar þarf líka að þakka sérstaklega þar sem vinnustaður þeirra var lagður í rúst eftir ákvörðun stjórnar og þeirra framlag til að þetta gæti orðið mögulegt og jafn stórglæsilegt og raun ber vitni.“

„Sjálfboðaliðar eiga líka mikinn þátt í þessu verkefni og var ég í gærkvöldi að reikna saman þá tíma sem þeir lögðu til. Ef mér  reiknast rétt til liggja hér um 290 sjálfboðnar stundir, það gerir um 1.600.000,- kr. í laun ef ekki meira.  Þessi sjálfboðaliðar spöruðu deildinni um 3 til 4 milljónir með sínu framlagi og það þakka ég sérstaklega fyrir.“

Þá var Benedikt Sveinssyni byggingastjóra og sjálfboðaliðar úr Kiwanis klúbbnum Höfða heiðraðir fyrir sitt framlag og var þeim afhent viðurkenningarskjal og fallegur blómvöndur ásamt Rauða kross nælu.