Hjartahlýja fyrir Konukot

18. des. 2013

Prjónasmiðjan Tína setti upp atburðinn Hjartahlýja á facebook-síðunni.

Þegar Lilja Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur kom færandi hendi í Konukot með afrakstur atburðarins var hún beðin að segja aðeins frá tilurð gjafanna.

"Málið er að fyrir rúmu ári síðan bað vinkona mín mig um að aðstoða sig við að halda úti facebook-síðu sem hún var með í tengslum við litla fyrirtæki sitt, er heitir Prjónasmiðja Tínu. Þessi vinkona mín heitir Christine Einarsson en er alltaf kölluð Tína og hefur hún m.a. hannað prjónauppskrifitr, haldið námskeið og gefið út bækur tengdar prjóni. Þessi kona er alveg gjörsamlega yndisleg og er alltaf tilbúin til að aðstoða alla ef hún mögulega getur og síðunni er ekki síst haldið uppi til að koma með skemmtileg ráð og punkta varðandi prjónaskap og hannyrðir, ásamt bara skemmtilegum fróðleiksmolum og skemmtun. Af of til hafa verið einhverjir leikir eða samprjónsverkefni fyrir vini síðunnar. Í fyrra vorum við að velta fyrir okkur hvað við gætum gert sniðugt á haustdögunum og kom þá upp hugmyndin að virkja fólk til að prjóna fyrir gott málefni. Ég var eiginlega strax með í huganum heimilislaust fólk, þar sem mér fannst að áherslan væri svo oft á fjölskyldur og barnafólk, en að þessi hópur yrði frekar útundan. Síðan vildi ég takmarka þetta aðeins, þannig að fólk vissi þá alveg í hvað hlutirnir væru að fara og gera þetta svona svolítið persónulegra."

"Því miður varð nú aldrei úr að við settum þetta á laggirnar í fyrra, en í staðin vildum við virkja þetta núna og hafði ég því fyrst samband við ykkur til að sjá hvort það væri í lagi. Síðan var bara settur upp atburður á facebook-síðunni og verkefnið var kallað Hjartahlýja. Fólki var gefinn október mánuður til að prjóna annað hvort húfu, vettlinga eða sokka, og koma þeim til annað hvort mín eða Tínu. Í raun hafði ég ekki hugmynd um hvernig þetta myndi spilast út, en þegar uppi var staðið var ég með flíkur í næstum fjóra stóra kassa og kom þetta alls staðar að á landinu. Sumir sendu marga hluti, ein t.d. sendi fimm eða sex lopapeysur, önnur eflaust um 20 húfur o.s.frv. Og ekki nóg með að hlutirnir væru margir, heldur einnig virkilega vandaðir og fallegir."

Þannig endaði þetta nú hjá ykkur og veit ég að konurnar sem lögðu okkur lið með þetta gerðu það virkilega frá hjartanu og prjónuðu/hekluðu flíkurnar með umhyggju og góðvild.