Kópavogsdeild og BYKO taka höndum saman um að byggja betra samfélag

4. okt. 2006

Fulltrúar Kópavogsdeildar Rauða krossins og BYKO undirrituðu í dag samstarfssamning vegna verkefna deildarinnar með ungum innflytjendum, Enter og Eldhuga. Samningurinn felur meðal annars í sér að BYKO styrkir verkefnin með myndarlegu fjárframlagi sem gerir deildinni kleift að standa að þeim af þeim krafti og metnaði sem til þarf. 

„Þegar fulltrúar Kópavogsdeildar komu og kynntu hugmyndir sínar fyrir okkur sáum við strax að um var að ræða verðug verkefni. Rætur BYKO liggja í Kópavoginum og við höfum um langt árabil tekið þátt í að byggja bæinn með fólki. Nú gefst okkur ánægjulegt tækifæri til að byggja líka upp fólk og þannig betra samfélag í samstarfi við Kópavogsdeild Rauða krossins," sagði Ásdís Halla Bragadóttir, forstjóri BYKO, sem undirritaði samninginn ásamt Iðunni Jónsdóttur framkvæmdastjóra. Viðstaddir voru krakkarnir í Enter, sjálfboðaliðar og fulltrúar fjölmiðla.
Samstarfið við BYKO markar ákveðin tímamót í starfi Kópavogsdeildar Rauða krossins því hún hefur ekki áður farið út í samstarf af þessu tagi með aðila úr viðskiptalífinu.Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar segir að samstarfið feli annað og meira í sér en fjárhagslegan stuðning.

„Í samningnum við BYKO felst jafnframt mikill siðferðilegur stuðningur. Það er mjög ánægjulegt að svo stórt og öflugt fyrirtæki með djúpar rætur í bænum skuli með þessum hætti meta starf okkar að verðleikum og gera okkar hugsjónir að sínum, það er að stuðla að gagnkvæmum skilningi og vináttu á milli fólks óháð þjóðerni, trúarbrögðum eða öðru sem oft vill verða hindrun í mannlegum samskiptum," segir Garðar.

Verkefnið Eldhugar er að fara af stað í fyrsta sinn og hefur byrjað af miklum krafti. Ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna hittast vikulega í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og vinna með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi. Verkefni þetta hefur einnig hlotið styrk frá ESB áætluninni Ungu fólki í Evrópu.

Verkefnið Enter er fyrirrennari Eldhuga en í því eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Þar er lögð áhersla á markvissa málörvun í hvers kyns leikjum og fræðslu til að auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi.

Rúmlega tuttugu sjálfboðaliðar Rauða krossins stýra starfinu í Eldhugum og Enter. Enn er hægt að bæta við fleirum í hóp þeirra og áhugasamir geta haft samband í síma Kópavogsdeildar 554 6626 eða á [email protected]