Kjósarsýsludeild styður börn í Mósambík

2. okt. 2006

Kjósarsýsludeild Rauða krossins hefur ákveðið að styðja athvarf fyrir börn í borginni Beira í norðurhluta Mósambík. Framlag deildarinnar er 1 m.kr. næstu tvö árin. Að auki styður Kjósarsýsludeild ýmiss konar uppbyggingu á vegum Rauða kross deildarinnar í Dondo, sem starfar í nærliggjandi byggðarlagi. Deildin verður aðstoðuð við barna- og ungmennastarf, fræðslu um alnæmi og við endurbætur á húsnæði deildarinnar.

Athvarfið í Beira er fyrir börn sem misst hafa foreldra sína, oft vegna alnæmis, eða búa við fátækt af öðrum orsökum. Börnin njóta umhyggju og aðstoðar, fá fæði, aðstoð við heimanám, heilbrigðisþjónustu og hljóta ýmiss konar iðnþjálfun, t.d. læra þau saumaskap, húsgagnasmíði o.fl. Á hverju ári fá samtals um 150 börn aðstoð í athvarfinu sem nefnist „Tinotenda".

Rauða kross deildin í Dondo fær stuðning frá Kjósarsýsludeild til að geta sinnt barna- og ungmennastarfi og einnig til forvarna vegna alnæmisvandans. Allt að 30% íbúa eru smituð af alnæmisveirunni svo að mjög brýnt er að fræða um hvernig megi verjast smiti. Gert er ráð fyrir að 25 sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar í Dondo fái þjálfun í forvörnum og stuðningi við alnæmissmitaða. Jafnframt verður húsnæði Rauða kross deildarinnar lagfært svo að deildafólk geti betur sinnt starfi sínu, en gera þarf við þak hússins o.fl.

Jóhannes Baldur Guðmundsson formaður Kjósarsýsludeildar og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands skrifuðu undir samkomulag um stuðninginn. Flestar deildir Rauða kross Íslands taka nú þátt í samstarfi við Rauða kross deildir í Afríku sem nefnt hefur verið vinadeildasamstarf. Deildirnar hér heima styðja ákveðin verkefni í erlendu vinadeildinni og fylgjast með framgangi þeirra. Margar deildir selja handverk, t.d. batíkmyndir, til að afla fjár til verkefnanna í Afríku.