Skemmtileg dagsferð gesta í Dvöl

18. ágú. 2006

Gestir í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, fóru í dagsferð 18. júlí um svæði á Reykjanesi og Suðurlandi. Sautján þátttakendur mættu í Dvöl að morgni dags í blíðskaparveðri. Keyrt var um Hafnarfjörð að Kleifarvatni og til Krýsuvíkur. Hópurinn skoðaði jarðhitasvæðið í Krýsuvík og því næst Krýsuvíkurkirkju.

Næsta stopp var við Strandakirkju og kirkjan skoðuð. Rétt hjá kirkjunni er lítið, snoturt veitingahús sem heitir T-húsið þar sem ferðalangarnir fengu sér kaffisopa. Konan sem rekur kaffihúsið prjónar lopapeysur þegar rólegt er og selur á staðnum. Hópurinn sló saman og keypti peysu í kveðjugjöf handa Joakim Lilljegren, sjálfboðaliða frá Alþjóðlegum Ungmennaskiptum, sem hefur starfað í Dvöl undanfarið eitt ár en er nú farinn heim til Svíþjóðar.

Hópurinn fór því næst á Stokkseyri, skoðaði Töfragarðinn og snæddi hádegisverð á veitingastaðnum Við fjöruborðið. Á leiðinni heim var komið við í Eden í Hveragerði.

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands annast rekstur Dvalar í samvinnu við Kópavogsbæ og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Markmiðið með rekstrinum er að rjúfa félagslega einangrun, draga úr fordómum og auka lífsgæði þeirra sem eiga við geðræna sjúkdóma að stríða. Gestir koma í Dvöl á eigin forsendum eða með stuðningi annarra og njóta þeirrar þjónustu sem er í boði. Áhersla er lögð á að efla sjálfstæði og virkni gestanna. Sjálfboðaliðar hafa verið virkir  í rekstri Dvalar frá upphafi og sjá m.a. um að halda opnu húsi á laugardögum.

Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.