Líflegur útimarkaður á Thorsplani

9. ágú. 2006

Sjálfboðaliðar Rauðakrossbúðarinnar héldu útimarkað á Thorsplani í Hafnarfirði á blíðvirðisdegi í síðustu viku. Fjöldi fólks kíkti við og góð stemning ríkti.

Á markaðnum mátti finna ýmsa muni s.s. barnaleikföng, kraftgalla fyrir Verslunarmannahelgina, jakkaföt, leðurjakka og margt fleira. Salan var góð og sjálfboðaliðarnir voru ánægðir með daginn. Ef vel viðrar í ágúst má búast við að leikurinn verði endurtekinn enda tiltækið kærkomið krydd í miðbæjarlífið.

Allur ágóði af sölu í Rauðakrossbúðunum rennur til hjálparstarfs Rauða kross Íslands. Búðirnar eru alfarið mannaðar sjálfboðaliðum sem vinna að meðaltali eina vakt í viku. Ef þú hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði í versluninni á Strandgötu eða Laugavegi hafðu þá samband við Örn Ragnarsson verkefnisstjóra í síma 587-0900.