Rauði krossinn á Framadögum

Ingibjörgu Eggertsdóttur

6. feb. 2006

Huldís Haraldsdóttir, Fanney Karlsdóttir, Elfa Dögg S. Leifsdóttir og Áslaug Arnoldsdóttir í bás Rauða krossins á Framadögum.

AIESEC, alþjóðlegt félag háskólanema, stóð fyrir Framadögum í 12. sinn föstudaginn 3. febrúar. Markmið Framadaga er fyrst og fremst að veita háskólanemum greiðan aðgang að framsæknum fyrirtækjum og forsvarsmönnum þeirra. Háskólanemar fá þannig tækifæri til að gera sér grein fyrir því hvernig menntun þeirra nýtist í atvinnulífinu.

Rauða krossinum var boðið að taka þátt í Framadögum eins og undanfarin þrjú ár. Er þetta gott tækifæri fyrir félagið að kynna starfsemina fyrir háskólanemum. Áhersla var lögð á að kynna sjálfboðin störf og störf sendifulltrúa á erlendri grundu.

Deildir Rauða krossins í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði kynntu verkefni deildanna og sendifulltrúar voru einnig á staðnum og svöruðu spurningum um þau fjölbreyttu og spennandi störf sem þeir taka að sér.

Framadagar bjóða upp á ?Smáþjálfun? og hélt Garðar Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar Rauða krossins og stjórnarmaður í Rauða krossi Íslands fyrirlestur um Sjálfboðið starf, gildi þess fyrir samfélagið og fólk á framabraut.

Það voru margir sem lögðu leið sína í bás Rauða krossins og er óhætt að segja að það var afskaplega ánægjulegt að hitta unga og áhugasama háskólanema.

Hjá Rauða krossinum eru fjölbreytt sjálfboðaliðaverkefni í boði t.d. aðstoð við börn af erlendum uppruna, svörun í Hjálparsímann 1717, heimsóknir til einmana fólks, skyndihjálp o.fl. Háskólanemar sækjast í auknum mæli í sjálfboðin störf enda sjá þeir fólgin í þeim tækifæri til að bæta við reynslu sína sem þeir geta nýtt sér á framabrautinni.