Heitar umræður um fordóma og mismunun

30. jan. 2006

Þessir hressu krakkar úr Öldutúnsskóla tóku þátt í umræðum um fordóma og mismunun undir kjörorðunum ,,Byggjum betra samfélag."
Það sköpuðust heitar umræður um fordóma og mismunun meðal nemenda í 10. bekkjum Öldutúnsskóla í Hafnarfirði er þau heimsóttu Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins fyrir helgi.

Krakkarnir röltu ásamt kennara sínum niður í miðbæ þar sem deildin er til húsa og spjölluðu við Áshildi Linnet framkvæmdastjóra um fordóma og mismunun í íslensku samfélagi undir kjörorðunum ,,byggjum betra samfélag".

Byggjum betra samfélag er vitundarvakning Rauða krossins um fordóma og mismunun og er markmiðið að vekja ungt fólk til umhugsunar um málefni minnihlutahópa í landinu og auka skilning þeirra og umburðarlyndi gagnvart náunganum. Með opinni umræðu og þátttöku ungs fólks vonast Rauði krossinn til að geta stuðlað að betra samfélagi án mismununar.

Rúmlega sextíu krakkar úr Öldutúnsskóla veltu því hugtökum eins og fordómum, mismunun, virðingu, skilningi og umburðalyndi fyrir sér í líflegum umræðum um málefni minnihlutahópa á Íslandi. Ólík viðhorf komu fram og veltu krakkarnir málunum fyrir sér frá mismunandi sjónarhornum. Heimsóknin var hluti af lífsleikninámi í skólanum en nemendurnir hafa undanfarið verið að ræða þessi málefni og þá ábyrgð sem fylgir því að njóta mannréttinda líkt og tjáningarfrelsis.