Viðurkenningarhafar Alþjóðahúss 2005

Af vefsíðu Alþjóðahúss, www.ahus.is

5. jan. 2006

Frá vinstri: Bjarni Karlsson, Jóna Hrönn Bolladóttir, Vigdís Arna Jónsdóttir, Hope Knútsson og Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson. Fremst er barnabarn Hafdísar.
Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson afhenti 30.12.2005 í Alþjóðahúsinu Jónu Hrönn Bolladóttur, Bjarna Karlssyni, Hope Knútsson og Kramhúsinu viðurkenningu Alþjóðahúss fyrir lofsverða frammistöðu í málefnum innflytjenda á Íslandi. Viðurkenningarnar eru veittar í þremur flokkum; einstaklingur af innlendum uppruna, einstaklingur af erlendum uppruna og fyrirtæki eða stofnun. Alþjóðahúsið er rekið af Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands.

Viðurkenningarnar, sem nú eru veittar í þriðja skiptið, þjóna þeim tilgangi að vekja athygli á jákvæðu starfi sem unnið er hér á landi í málefnum innflytjenda. Þeir sem viðurkenninguna fá eru vel að henni komnir enda unnið frumkvöðlastarf á undanförnum árum í málefnum fjölmenningarlegs samfélags.

Séra Jóna Hrönn Bolladóttir og séra Bjarni Karlsson eru samhent hjón sem hafa unnið saman að því að bæta aðstæður innflytjenda og hafa verið óþreytandi við að leggja sitt af mörkum í því efni. Því hefur verið ákveðið að veita þeim einstaklingsviðurkenningu saman. Þau hafa verið öðrum fordæmi með því að tala opinberlega fyrir því að stuðla að samskiptum í anda fjölmenningar. Þau hafa saman lyft grettistaki í uppbyggingu á unglingastarfi gegn fordómum, til að mynda með verkefninu ?Adrenalín gegn rasisma,? sem Jóna Hrönn hefur borið hitann og þungann af.

Hope Knútsson flutti til Íslands frá Bandaríkjunum árið 1974. Hún hefur allar götur síðan verið frumkvöðull á mörgum sviðum félagsstarfs og komið mörgu til leiðar.  Meðal þeirra félagasamtaka sem hafa notið frumkvæðis hennar og félagsstarfa eru Iðjuþjálfafélag Íslands, Geðhjálp, BHM, Siðmennt, SONI (Society of New Icelanders) og Fjölmenningarráð. Þá hefur Hope komið fram opinberlega við ótalmörg tækifæri til að fjalla um málefni innflytjenda á Íslandi, gagnkvæma aðlögun, fjölmenningarsamfélag og aðra þætti sem skipta innflytjendur máli.

Hafdís Árnadóttir eigandi og framkvæmdastjóri Kramhússins og hennar alþjóðlega starfslið hefur með frumkvæði og krafti sett svip á fjölmenningarlíf í Reykjavík með kennslu og kynningu á dansi, tónlist og hreyfilist fyrir fólk á aldrinum 3 ? 80 ára.  Kramhúsið hefur dregið að til kennslu fjölmarga erlenda listamenn sem hafa auðgað mannlíf og skólalíf i borginni og víðar um landið með menningu sinni. Starfsmannastefna Kramhússins byggist á fjölbreytni og fjölmenningu og er öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar.