Nemendur á Álftanesi safna til styrktar hjálparstarfi í Pakistan

Jón Brynjar Jónsson

2. jan. 2006

Fulltrúar Álftanesdeildar Rauða kross Íslands taka við framlagi frá Álftanesskóla.
Máltækið um að sælla sé að gefa en þiggja á svo sannarlega við enn þann dag í dag. Nemendur Álftanesskóla tóku sig nefnilega til í desember og ákváðu að sleppa því að skiptast á gjöfum á litlu jólum skólans, heldur notuðu andvirði gjafanna til að styrkja hjálparstarf Rauða krossins í Pakistan.

Nemendaráðið afhenti stjórnarmönnum Álftanesdeildar Rauða krossins söfnunarféð við formlega athöfn í húsakynnum skólans mánudaginn 19. desember síðastliðinn.

Unnið að öryggi barna í sveitarfélaginu
Þegar stjórnarmenn í Álftanesdeild og svæðisfulltrúi Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu tóku á móti framlaginu notuðu þeir tækifærið til að heimsækja uppeldis- og íþróttastofnanir bæjarins með það fyrir augum að auka öryggi barna og ungmenna í sveitarfélaginu.

Stoltir grunnskólanemar með endurskinsvestin.
Íþróttamiðstöð Álftaness fékk að gjöf 20 endurskinsborða sem almenningur getur fengið að láni fyrir útiskokk og aðra íþróttaiðkun. Einnig afhenti deildin fulltrúum Álftanesskóla 50 endurskinsvesti sem yngstu börn skólans munu nýta sér við útivist og vettvangsferðir. Áður hafði leikskólinn Krakkakot fengið að gjöf samskonar vesti.

Ferðin var svo notuð til að afhenda leikskólanum og grunnskólanum bók um Genfarsamningana og leikskólinn fékk einnig að gjöf geislaplötuna ,,Úr vísnabók heimsins? sem verið er að dreifa til leikskóla á öllu landinu um þessar mundir.