Líflegar umræður í Flensborgarskólanum

Áshildi Linnet

18. nóv. 2005

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.
Fulltrúar frá Rauða krossinum heimsóttu á dögunum nemendur Flensborgarskólans í Hafnarfirði og fræddu þá um starf Rauða krossins, jafnt innanlands sem utan. Fræðslan fór fram í sögu og félagsfræði.

Í áfanga um sögu líðandi stundar voru neyðarvarnir hreyfingarinnar kynntar og meðal annars fjallað um hvernig brugðist er við náttúruhamförum. Nemendur fræddust um hlutverk Rauða kross Íslands í almannavarnakerfinu og skoðuðu meða annars heimasíðu félagsins.

Líflegar umræður sköpuðust um málsvarastarf Rauða krossins og þá sérstaklega um stöðu innflytjenda í íslensku samfélagi. Allir höfðu skoðun á málinu og var hópurinn sammála um mikilvægi þess að Íslendingar taki vel á móti innflytjendum.

Í nútímasögu var fjallað um stríðsátök, hlutverk Rauða krossins og alþjóða samfélagsins á átakasvæðum. Áhersla var lögð á umfjöllun um áhrif stríðsátaka á börn og hvað hægt sé að gera til að tryggja mannréttindi barna í stríðshrjáðum löndum. Nemendur fengu allir afhent kynningarefni um Rauða kross Íslands og svo skemmtilega vildi til að einn af nemendunum sem er á leið til Guatemala til sjálfboðaliðastarfa hafði nýlega fengið boð um að starfa með Rauða krossinum þar í landi á meðan á dvöl hennar ytra stendur.

Í félagsfræði eru nemendur að læra um þróunarlöndin og kenningar um ólíka þróun Norðurs og Suðurs. Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og sjálfboðaliði sagði þeim því frá starfi Rauða kross Íslands í Suður-Afríku og fjallaði hún m.a. um þann raunveruleika sem blasir við fólkinu þar og baráttuna við alnæmi. Í umræðutíma daginn eftir báru nemendur svo saman þær kenningar sem þau hafa fjallað um í vetur og þann veruleika sem blasir við Rauða krossinum í starfi hans í Suður-Afríku.

Mikil ánægja var með samstarfið milli skólans og Hafnarfjarðardeildar og eru allir sammála að samstarfið sé komið til að vera. Fræðslan að þessu sinni fór fram meðal eldri nemenda en fyrsta árs nemar munu á næstunni heimsækja sjálfboðamiðstöðina á Strandgötu til að fræðast um sjálfboðið starf.