Maður er manns gaman - um heimsóknaþjónusta

Áshildi Linnet

18. nóv. 2005

Sigurborg Magnúsdóttir er hópstjóri heimsóknarvina í Hafnarfirði.
Áshildur er framkvæmdastjóri Hafnarfjarðardeildar Rauða kross Íslands.

Um árabil hafa sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands tekið þátt í heimsóknarþjónustu um allt land enda hefur heimsóknarþjónusta verið eitt af áhersluverkefnum félagsins frá árinu 2000. Þjónustan byggir á því að heimsóknarvinur Rauða krossins heimsækir fólk sem þess hefur óskað eftir samkomulagi. Algengt er að heimsóknarvinur komi einu sinni í viku í um klukkustund í senn. Þetta er skemmtilegt verkefni sem gefur bæði heimsóknarvininum og gestgjafanum mikla gleði og ánægju því eins og við þekkjum er maður manns gaman.

Ástæður einsemdar geta verið margvíslegar en aðstæður og upplag geta orðið þess valdandi að fólk missir samband við umheiminn og einangrast. Það getur svo reynst erfitt að rjúfa vítahring einsemdarinnar þrátt fyrir að við höfum öll þörf fyrir mannlega snertingu og félagsskap.

En hvað gera heimsóknavinir? Þeir koma fyrst og fremst til að spjalla við gestgjafann en einnig geta þeir lesið eða farið í gönguferðir sé þess óskað. Hvað menn gera er samkomulag hverju sinni. Í starfi sínu gæta sjálfboðaliðarnir fyllsta trúnaðar og eru bundnir þagnarskyldu og því fer vitneskja um persónulega hagi fólks ekki lengra.

Fram til þessa hafa heimsóknavinir Rauða krossins einkum heimsótt aldrað fólk jafnt í heimahús sem á öldrunarstofnanir. Heimsóknarþjónustan einskorðast þó ekki við þennan hóp því að allir sem telja sig hafa þörf á heimsókn geta haft samband við Rauða krossinn og óskað eftir heimsóknum. Verkefnið hefur tekið á sig ólíkar myndir eftir aðstæðum í hinum ýmsu byggðum landsins. Gott dæmi um slíkt er í Vestmannaeyjum þar sem starfandi er hópur ökuvina, fólk sem er til í að skreppa á rúntinn með öðrum niður á bryggju. Þetta byggist auðvitað á því að í Vestmannaeyjum er rík hefð fyrir bryggjurápi bæjarbúa enda er þar iðulega líf og fjör.

Hefðbundnari mynd heimsóknarþjónustunnar má svo sjá víða og sem dæmi má nefna að í Kópavogi sinna sjálfboðaliðar jafnt heimsóknum á einkaheimilum og hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð auk sambýla aldraðra.

Fyrir þremur árum sá Sigurborg Magnúsdóttir auglýst námskeið fyrir heimsóknarvini í Hafnarfirði. Á þeim tíma hafði hún nýlega látið af störfum sem hjúkrunarfræðingur og langaði að halda áfram að vinna við eitthvað sem henni þætti gefandi. Sigurborg er nú hópstjóri heimsóknarvina í Hafnarfirði og fer sjálf í heimsókn til síns vinar einu sinni í viku.

Mér líkar mjög vel að starfa sem heimsóknarvinur. Þetta starf er einkar gefandi,? segir Sigurborg. Hún bætir við að heimsóknir geti líka verið krefjandi og að mikilvægt sé að vera sveigjanlegur.

Sem hópstjóri sér Sigurborg um að kynna nýja heimsóknarvini og gestgjafa auk undirbúnings fyrir reglulega fræðslu og hópeflisfundi sem haldnir eru fyrir sjálfboðaliða. ?Það bíða okkar mörg verkefni og þörfin fyrir heimsóknarvini er til staðar,? segir Sigurborg að lokum.

Ef þú hefur áhuga á að gerast heimsóknarvinur erða vilt fá heimsókn frá sjálfboðaliða hafðu þá samband við Rauða kross deildina á þínu svæði. Þú getur líka haft samband við landskrifstofu Rauða kross Íslands í síma 570-4000 eða skráð þig á heimasíðunni www.redcross.is.