Kosturinn við sjálfboðavinnu að geta valið það sem hentar manni best

14. okt. 2011

Jón Sigurgeirsson hefur verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum frá því 2009. Jón tekur þátt í tveimur verkefnum, er heimsóknavinur hjá félagsstarfi aldraðra á Dalbraut þar sem hann mætir einu sinni í viku við þriðja mann og les upp úr blöðunum fyrir heimilisfólk, og svo styður hann börn í heimanámi tvisvar í viku.

Áður en Jón tók að sér þessi tvö verkefni hafði hann prófað að vera sjálfboðaliði í Rauðakrosshúsinu og eins að vera heimsóknavinur ungs ofvirks drengs sem var af erlendum uppruna. Hann fann þó fljótt að þessi verkefni hentuðu honum ekki og því leitaði hann í annað.

„Það er kosturinn við að vinna sjálfboðavinnu, að maður getur sjálfur valið það sem hentar manni best, ólíkt því sem gerist á vinnumarkaðnum,“ segir hann.

Jón hefur átt við þunglyndi að stríða frá unga aldri og hefur tekist á við sjúkdóminn í gegnum lífið. Hann hætti að vinna fyrir Blindrafélagið í þann mund sem fór að þrengjast um á vinnumarkaði, en þar sem hann gat leyft sér að lifa á lífeyrinum ákvað hann að leita eftir öðru sem krefðist þess samt að hann hefði fastan ramma og rútínu.

„Ég þarf líka að finna að ég sé að gera gagn og sé mikilvægur, það er það tvennt sem ég sækist eftir,“ segir Jón.

Og þar sem hann náði ekki tengingu við drenginn sem hann heimsótti og sjálfboðavinnan í Rauðakrosshúsinu var stopul og snerist að mestu leyti um kaffiveitingar fann hann annan vettvang fyrir krafta sína.

Heimsóknavinir eru langstærsta verkefni deilda Rauða krossins um allt land og hefur sérstöðu að því leyti að það er sérsniðið að þörfum þeirra sem heimsækja og fá heimsókn. Þetta geta verið einstaklingar eða hópar, bæði sem heimsækja og sem eru heimsóttir.   Jón hafði fengið pata af því að þörf væri fyrir heimsóknaþjónustu á Norðurbrún 1 og settist niður með verkefnisstjóra Reykjavíkurdeildar með þá hugmynd að lesa upp úr dagblöðum fyrir íbúa þar sem margir hverjir geta ekki lengur lesið.

„Það varð úr að við förum þrír saman og lesum upp úr blöðunum, fyrirsagnir og dægurmál, og segjum brandara við góðar undirtektir á hverjum föstudagsmorgni,“ segir Jón. „Það koma 10-12 konur að jafnaði og eru með okkur þessa stund.“

Jón segist sömuleiðis hafa dottið niður á heimanámsaðstoðina sem hann sinnir tvisvar í viku í Gerðubergi og á borgarbókasafninu í Kringlunni.

„Það hentaði mér akkúrat. Mér finnst ofboðslega gaman að kenna, og þarna koma yndislegir krakkar og mér finnst þetta mjög skemmtilegt,“ segir hann. „Þetta virkar á báða bóga - það virkar fyrir mig af því að það virkar fyrir aðra, og það heldur mér heilbrigðum.“

Jón er einnig virkur félagi í klúbbnum Geysi sem er fyrir fólk sem á eða átt hefur við geðræn veikindi að stríða og byggir á markvissri uppbyggingu á hæfileikum og getu einstaklingsins. Jón segir að með því að tileinka sér þá hugmyndafræði hafi honum tekist að snúa lífinu upp í jákvæðni og átt sinn besta tíma ævinnar nú síðustu ár.

„Það eru miklu fleiri sem geta nýtt sér það að sinna sjálfboðastörfum,“ segir Jón.