Opið hús í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð á 112 daginn

Jón Brynjar Birgisson

15. feb. 2006

Margir litu við hjá Rauða krossinum og fræddust um starf félagsins innan almannavarnakerfisins.
Þann 11. febrúar síðastliðinn fylktu allir helstu viðbragðsaðilar á höfuðborgarsvæðinu liði í sameiginlegri kynningu á því umfangsmikla björgunar- og neyðarkerfi sem fer í gang þegar fólk í nauðum hringir í Neyðarlínuna 112.

Rauða kross deildir á höfuðborgarsvæðinu voru með tvo kynningarbása á sýningunni. Í öðrum þeirra gafst almenningi kostur á að kynnast nýjum staðli í endurlífgun ásamt því að prófa sjálfvirk hjartastuðtæki. Fjölmargir gestir notuðu tækifærið og reyndu kunnáttu sína í skyndihjálp á kennslubrúðum.

Í hinum básnum fór fram kynning á fjöldahjálp. Hugtakið var útskýrt og helsti búnaður sem Rauði krossinn notast við í fjöldahjálparstöðvum var hafður til sýnis. Básarnir voru mannaðir eldhressum skyndihjálparleiðbeinendum og fjöldahjálparstjórum úr skyndihjálparhópi Reykjavíkurdeildarinnar sem sáu til þess að engum leiddist það sem fyrir augu og eyru bar.