Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, heimsótti Kópavogsdeild í dag

17. okt. 2011

Í tilefni af Rauðakrossvikunni, sérstakri kynningarviku Rauða krossins, sem hófst í dag heimsótti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Kópavogsdeild en forsetinn er verndari hreyfingarinnar á Íslandi. Hann hitti hóp af ungum sjálfboðaliðum og kynnti sér störf þeirra fyrir deildina. Hér voru komnir saman ungir sjálfboðaliðar sem taka þátt í verkefnum eins og Enter, Eldhugum, Plúsnum og heimsóknaþjónustu. Þeir sögðu honum frá verkefnunum, hvað þau gera fyrir deildina og hvað sjálfboðna starfið gefur þeim. Þá ræddu þeir við forsetann um mikilvægi sjálfboðaliðastarfa og hversu skemmtilegt og gefandi starfið er.

Kópavogsdeild leggur áherslu á að skapa tækifæri fyrir ungmenni að taka þátt í starfi Rauða krossins. Hún gerir það sérstaklega með samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi, Menntaskólann við Hamrahlíð og Háskóla Íslands. Þá eru verkefni Rauða krossins kynnt í félagsmiðstöðvum grunnskóla Kópavogs til að vekja athygli á starfi hreyfingarinnar og hvetja ungmenni til að taka þátt í því.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starf deildarinnar betur geta smellt á hlekkina fyrir viðkomandi verkefni hér til vinstri eða haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is