Samstarf um aðstoð við fjölskyldur í Kópavogi

1. okt. 2006

Kópavogsdeild Rauða kross Íslands og Mæðrastyrksnefnd Kópavogs munu starfa saman að neyðaraðstoð við bágstadda einstaklinga og fjölskyldur fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd Kópavogs annast úthlutun á matarstyrkjum til fjölskyldna í neyð með stuðningi frá Kópavogsdeild Rauða krossins sem hefur afhent Mæðrastyrksnefnd styrk að upphæð 500 þúsund krónur. Kópavogsdeild getur einnig haft milligöngu um að koma umsóknum um aðstoð til Mæðrastyrksnefndar.

Kópavogsdeild Rauða krossins hvetur fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga til að leggja Mæðrastyrksnefnd Kópavogs lið í aðstoðinni við Kópavogsbúa fyrir jólin.

Í desember munu sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar aðstoða Mæðrastyrksnefnd við úthlutanir á matarstyrkjum og fatnaði til Kópavogsbúa.

Allan ársins hring sér Mæðrastyrksnefnd Kópavogs um að úthluta fatnaði til þeirra sem þurfa á þriðjudögum kl. 16-18 í Fannborg 5. Rauði kross Íslands úthlutar fatnaði á miðvikudögum kl. 9-14 í fataflokkunarstöðinni að Gjótuhrauni 7 í Hafnarfirði.