Flensborgarar fræðast um hjálparstarf

6. nóv. 2006

Nemendur í félagsfræði þróunarlanda í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði fræddust á dögunum um hjálparstarf Rauða krossins í kjölfar flóðanna í Asíu sem urðu í desember 2004. 

Hólmfríður Garðarsdóttir sendifulltrúi heimsótti nemana. Hún starfaði sem ljósmóðir í tjaldsjúkrahúsi í Banda Aceh héraði í Indónesíu og hefur víðtæka reynslu af störfum fyrir Rauða krossinn. Sýndi Hólmfríður nemendum fjölda ljósmynda sem hún tók á meðan á dvöl hennar stóð sem bæði sýndu hjálparstarfið og aðstæður fólksins sem þarna býr.

Heimsókn fulltrúa Rauða krossins til nemenda í þessum áfanga í Flensborgarskólanum er nú orðinn fastur liður í dagskrá áfangans. Að sögn Kristínar Magnúsdóttur félagsfræðikennara eru slíkar heimsóknir mjög mikilvægar til að veita nemendum betri innsýn í það efni sem fjallað er um. Markmiðið er að kynna þeim hjálparstarf, hvort sem um er að ræða neyðaraðstoð eða þróunaraðstoð, til að hægt sé að bera saman þann raunveruleika sem blasir við hjálparsamtökum og þær kenningar í þróunarfræðum sem nemendur kynnast í áfanganum.

Í umræðum nemenda og fulltrúa Rauða krossins voru ræddar ýmsar hliðar hjálparstarfs og þeirrar uppbyggingar sem þörf er á í Banda Aceh. Nemendur veltu fyrir sér hvernig menn bera sig að í hjálparstarfinu og einnig hver ástæðan sé fyrir því að uppbygging eftir hamfarir af þessu tagi taki jafn langan tíma og raun ber vitni. Umræðurnar vöktu nemendur til umhugsunar um hið flókna ferli neyðaraðstoðar og uppbyggingarstarfs.