Rekstur Dvalar tryggður til tveggja ára

6. nóv. 2006

Kópavogsdeild Rauða krossins, Kópavogsbær og Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi hafa gert með sér samning um rekstur Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða í Kópavogi, til næstu tveggja ára. Samkvæmt samningnum annast Kópavogsdeild reksturinn en Kópavogsbær og svæðisskrifstofan greiða launakostnað og leggja til húsnæði.

„Við höfum fjölmörg dæmi um það hvernig Dvöl hefur breytt lífi fólks til batnaðar og maður þarf ekki að spjalla lengi við gestina hérna til að komast að því hvaða þýðingu athvarfið hefur. Það er því afar ánægjulegt að taka þátt í þessum rekstri í góðu samstarfi við Kópavogsbæ og svæðisskrifstofuna," sagði Garðar H. Guðjónsson, formaður Kópavogsdeildar, við undirritun samningsins.

Athvarfið var opnað 1998 að frumkvæði Kópavogsdeildar Rauða kross Íslands. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun gestanna, draga úr fordómum í garð geðfatlaðra og auka lífsgæði þeirra. Fjöldi sjálfboðaliða Kópavogsdeildar starfar í tengslum við athvarfið og sjá þeir meðal annars um að hafa það opið á laugardögum.

Reynslan af rekstri Dvalar í Kópavogi og Vinjar í Reykjavík hefur orðið til þess að sambærileg athvörf eru nú rekin víða um land.