Rauðakross- hundar í Laugavegsgöngu

9. nóv. 2006

Á laugardaginn var stóð Hundaræktarfélag Íslands fyrir göngu með hunda niður Laugaveginn í Reykjavík. Lögregluhundur leiddi gönguna en einnig voru í forystusveit hundar og eigendur þeirra sem starfa sem sjálfboðaliðar í heimsóknaþjónustuverkefni Rauða kross Íslands.

Skólahljómsveit Kópavogs sá um að slá taktinn og endaði gangan í Hljómskálagarðinum þar sem Íþróttadeild Hundaræktarfélagsins sýndi hundafimi við mikinn fögnuð áhorfanda. Vöffluvagninn var síðan á sínum stað með rjúkandi heitar vöfflur og kakó til sölu. Góð þátttaka var í göngunni þrátt fyrir mikla rigningu en það kom ekki að sök þar sem menn og hundar mættu klædd eftir veðri.

Heimsóknahundar Rauða krossins!
Heimsóknir sjálfboðaliða með hunda er nýtt verkefni sem hefur verið í þróun hjá  heimsóknavinum. Kópavogsdeild tók að sér að halda utan um verkefnið til að byrja með og er fyrsta deild Rauða krossins sem býður upp á formlegar heimsóknir sjálfboðaliða með hunda. Sjö sjálfboðaliðar deildarinnar heimsækja fólk á sambýlum aldraða, langveik börn, alzheimersjúklinga og geðfatlaða.

Sérstakar undanþágur þarf til að fara í heimsóknir með gæludýr á sambýli og stofnanir og einnig þurfa hundarnir að uppfylla viss skilyrði til að fara með. Sjálfboðaliðarnir sækja sérsniðin námskeið áður en heimsóknir hefjast.