Fatamarkaður MK-nema til styrktar unglingum í Mósambík

9. nóv. 2006

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi halda fatamarkað laugardaginn 11. nóvember kl. 11-16 í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins að Hamraborg 11. Notuð föt verða seld á vægu verði, allt á 300 eða 500 krónur. Allur ágóði rennur í útskriftarsjóð fyrir munaðarlausa unglinga í Mósambík sem Rauði kross Íslands hefur stutt við bakið á og veitt námsaðstoð.

Fatamarkaðurinn er lokaverkefni nemendanna í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf (SJÁ 102). Þetta er önnur önnin í röð sem nemendur í MK geta valið áfangann en MK er fyrsti og enn sem komið er eini framhaldsskólinn sem kennir slíkan áfanga á landinu.

Í áfanganum hafa nemendurnir unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins í um 1-2 tíma á viku, svo sem starf með ungum innflytjendum, aðstoð við aldraða og langveik börn og stuðning við geðfatlaða. Nemendurnir flokkuðu síðan föt fyrir fatamarkaðinn í fataflokkunarstöð Rauða krossins og sáu um að setja markaðinn upp og auglýsa hann. Nemendurnir vonast til að sjá sem flesta Kópavogsbúa á markaðnum þar sem hægt er að gera góð kaup og styrkja um leið gott málefni.