Rúmar 150 þúsund krónur söfnuðust á fatamarkaði MK-nema

18. nóv. 2006

Nemendur í áfanga um sjálfboðið starf í MK afhentu í gær Rauða krossi Íslands 150.506 krónur sem renna til götubarna í Mósambík. Fjárhæðin er ágóði af fatamarkaði sem haldinn var í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar 11. nóvember síðastliðinn.

Anna Bryndís Hendriksdóttir, starfsmaður alþjóðasviðs Rauða kross Íslands, veitti söfnunarfé MK-nemanna viðtöku í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar og sagði að fjárhæðin myndi nýtast afar vel til að stofna útskriftarsjóð fyrir ungmenni í Mósambík sem Rauði kross Íslands hefur stutt við bakið á og veitt námsaðstoð. Börnin eru mörg munaðarlaus eftir borgarastyrjöld sem ríkti í landinu en auk þess er fjöldi barna að missa foreldra sína úr alnæmi.

Á fatamarkaðinn kom fjöldi fólks og keypti notuð föt til styrktar góðu málefni. Nemendurnir höfðu sett upp markaðinn og sáu um að afgreiða og aðstoða viðskiptavinina. Fatamarkaðurinn var lokaverkefni nemendanna í áfanganum um sjálfboðið Rauða kross starf. Menntaskólinn í Kópavogi er enn sem komið er eini framhaldsskólinn á landinu sem býður upp á þess háttar áfanga. Í áfanganum hafa nemendurnir unnið sjálfboðin störf fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins, svo sem starf með ungum innflytjendum, aðstoð við aldraða og langveik börn og stuðning við geðfatlaða. Verið er að vinna að því að koma á fót framhaldsáfanga í MK um sjálfboðið Rauða kross starf (SJÁ 202).