Styrkur frá Góða hirðinum

1. des. 2006

Rauði kross Íslands hlaut í dag tveggja milljóna króna styrk frá Góða hirðinum sem ætlað er að nýta í verkefnið Framtíð í nýju landi (FÍNL). Tilgangur þess er að aðstoða víetnömsk ungmenni á aldrinum 15-25 ára við að afla sér menntunar og ná markmiðum sínum. Um er að ræða þriggja ára þróunarverkefni og er lokaárið að hefjast. Við lok þess verður til fyrirmynd sem mun nýtast öðrum hópum innflytjenda og auðvelda þeim aðlögun að íslensku samfélagi. Helga G. Halldórsdóttir, sviðsstjóri innanlandssviðs Rauða krossins, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.

Auk Rauða krossins hlutu eftirtalin samtök styrk við þetta sama tilefni: Hjálparstarf kirkjunnar, Umhyggja, Bandalag kvenna, Hjálpræðisherinn, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs og Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar. Samtals voru þetta 10 milljónir króna og eru þær ágóði af rekstri Góða hirðisins á árinu.

Það er SORPA sem rekur Góða hirðinn en markmið hans er að endurnýta húsmuni og láta gott af sér leiða, því ágóðinn af sölunni rennur til góðgerðarmála. Á þessu ári hafa rúmlega 700 tonn af húsbúnaði farið í endurnotkun með þessum hætti.

Samstarf Rauða kross Íslands og SORPU er fjölbreytt, því félögin hafa með sér samstarfssamning um fataflokkun auk þess sem Rauði krossinn nýtur sérkjara í Góða hirðinum fyrir skjólstæðinga sína.