Tombólusölur mikilvægar í hjálparstarfi Rauða krossins

7. des. 2006

Einn duglegasti hópur sjálfboðaliða eru yngstu börnin sem standa fyrir tombólusölum til styrktar Rauða krossinum. Á þessu ári voru það 400 börn sem færðu Rauða krossinum hagnað tombólusölu, flöskusöfnunar eða annarra safnana að fjárhæð 600 þúsund krónum.

Undanfarin ár hefur Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar staðið fyrir bíósýningu í viðurkenningarskyni og Laugarásbíó gaf eins og áður eina sýningu. Að þessu sinni var það myndin Ástríkur og víkingarnir. Sýningin var á degi sjálfboðaliðans þann 5. desember og fjölmenntu krakkarnir í bíó. Mátti heyra hlátrasköll í salnum á meðan á myndinni stóð og að henni lokinni voru húrra hróp og lófaklapp.

Fyrir féð hjálpar Rauði krossinn börnum í Síerra Leone sem lentu í eða tóku þátt í borgarstyrjöldinni en mörg þeirra voru barnahermenn. Átökin komu í veg fyrir eðlilegan þroska þeirra á líkama og sál en sum þeirra misstu allt að fimm árum úr skóla. Fimm skólum hefur verið komið á laggirnar þar sem börnin stunda almennt bóknám og einnig ýmis skonar iðnnám.