Það er hægt að hjálpa á svo marga vegu

18. okt. 2011

Sigríður Óskarsdóttir úr Mosfellsbæ á margt sameiginlegt með öðrum sjálfboðaliðum Rauða krossins. Hana hafði lengi langað að gerast sjálfboðaliði og fljótlega eftir að hún missti vinnuna lét hún verða af því og hefur verið virk síðan. Hún byrjaði sem sjálfboðaliði í Rauðakrosshúsinu í Reykjavík vorið 2009 en eftir rúmt ár þar og með síhækkandi bensínverði færði hún sig nær heimilinu og er nú virkur sjálfboðaliði og gestur í Rauðakrosshúsinu í Mosfellsbæ.

Það sem Siggu þykir mikilvægast með Rauðakrosshúsin er að þau verða að föstum punkti í lífi fólks sem ekki hefur vinnu. Þarna fá allir félagsskap og hlutverk og henni þykir mun skemmtilegra að vera sjálfboðaliði sem vinnur fremur en einungis að njóta. Hún hefur lært mikið og stöðugt af öðru fólki í starfinu og þar að auki gefi það góða tilfinningu að hafa gert eitthvað sem hjálpar öðru fólki. Hún segir  mögulegt að veita aðstoð á svo marga vegu í Rauðakrosshúsinu. Hún er þar til dæmis að kenna  prjónaskap um leið og hún aðstoðar innflytjendur að bæta íslenskuna sína.  Þetta gerir hún á sama tíma og hún prjónar sjálf flíkur í Föt sem framlag sem sendar eru til fjölskyldna í Hvíta Rússlandi. Allt þetta hjálpar fólki og á sama tíma nýtur Sigga fjölbreytninnar í félagsskapnum, en í Mosfellsbæ tekur ungt fólk virkan þátt í sjálfboðnu starfi í verkefninu UFTA sem er skemmtileg viðbót í flóruna.

Á sumrin breytir Sigga aðeins til í sjálfboðastarfinu og hefur þrjú ár í röð unnið með börnum á námskeiðinu Gleðidagar þar sem hún sýnir gamlar ljósmyndir  og kennir prjónaskap í þremur deildum á höfuðborgarsvæðinu.