Nemendur í Hamraskóla hugsa til bágstaddra á jólum

22. des. 2006

Nemendur Hamraskóla héldu litlu jólin hátíðleg miðvikudaginn 20. desember meðal annars með því að færa Rauða krossinum andvirði jólapakka sem nemendur höfðu safnað. Í stað þess að halda jólagjafaleik á litlu jólunum skreyttu börnin umslög með fénu í til að gefa Rauða krossinum.

Fjölnir Sigurjónsson nemandi í 4.-5. A bekk afhenti fulltrúa frá Rauða krossi Íslands rúmlega 80 þúsund krónur en upphæðin rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.

„Það er ánægjulegt að finna ungt fólk sýna samkennd og leggja sitt af mörkum til að gera öðrum lífið léttbærara. Féð rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins sem nýttur er þegar vá ber að garði. Við færum nemendum Hamraskóla bestu þakkir,” segir Marín Þórsdóttir starfsmaður hjá Reykjavíkurdeild Rauða krossins sem heimsótti börnin í Hamraskóla og tók við gjöfinni.

Þetta er annað árið í röð sem nemendur í Hamraskóla gefa Rauða krossinum peningagjöf á litlu jólunum.