Rauði krossinn á framhaldsskólaböllum

Ingibjörgu B. Sveinsdóttur blaðamann á Blaðinu

16. feb. 2007

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands sinnir mikilvægu hlutverki á böllum framhaldsskólanema.
Ingibjörg B. Sveinsdóttir blaðamaður fjallaði um starfið í Blaðinu þann 13. febrúar 2007.

Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Reykjavík gæta ofurölvi framhaldsskólanemenda í svokölluðu ,,dauðaherbergi“ á skemmtistöðum þar sem skólarnir halda böll sín. Rauði krossinn hefur séð um sjúkragæslu á slíkum böllum frá 1995.

,,Drykkjan er alltaf eins. Flestir krakkar kunna ekki með áfengi að fara. Áfengisneysla er bönnuð á böllunum en þetta er bara svona,“ segir Viðar Arason, verkefnisstjóri skyndihjálparhópsins, sem vakti athygli á dögunum eftir frækilegt björgunarafrek í Ölfusá. Viðar er menntaður sjúkraflutningamaður og segir hann marga slíka í hópnum sem er við sjúkragæslu á framhaldsskólaböllunum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er sjúkragæsla ekki skilyrði fyrir leyfi til að halda ball, heldur hafa skólarnir sjálfir komið þessari reglu á.

,,Ef krakki er mjög ölvaður og getur ekki gert grein fyrir sér er hann fluttur í sérstakt sjúkraherbergi, sem krakkarnir kalla dauðaherbergi, og svo er hringt í foreldra hans. Þeir koma í öllum tilvikum strax á vettvang og eru mjög þakklátir fyrir þjónustuna,“ greinir Viðar frá. Hann segir sjálfboðaliða Rauða krossins ekki fara út af skemmtistaðnum fyrr en síðasti nemandinn er farinn úr húsi. ,,Við förum heldur ekki af svæðinu ef það er mikil ölvun fyrir utan skemmtistaðinn að balli loknu. Við förum ekki fyrr en allir eru farnir. Takmarkið er að krakkarnir séu í 100 prósenta gæslu,“ segir Viðar.

Að sögn Arnars Laufdals, framkvæmdastjóra Broadway, er það orðið sjaldgæfara en áður að framhaldsskólanemar borði á staðnum þegar þeir halda árshátíð. Algengast er að nemendur snæði á veitingastöðum eða panti mat í heimahús og komi svo á skemmtistaðinn á sjálfa árshátíðina.
Borði þeir á staðnum hverfa þeir í mörgum tilfellum allir af svæðinu að borðhaldi loknu til að fara í partí í heimahúsum. Síðan koma þeir aftur á skemmtistaðinn á sjálfa árshátíðina þótt í sumum tilfellum séu menn um kyrrt allt kvöldið.

,,Menn geta sagt sér það sjálfir hvers vegna krakkarnir fara burt í nokkrar klukkustundir en koma svo aftur. En það eru bara örfáir sem verða það ölvaðir að það leiði til vandræða. Yfirleitt fer þetta alltaf vel fram,“ leggur Arnar áherslu á.

ingibjorg@bladid.net