Rekstur Lækjar tryggður til næstu þriggja ára

22. feb. 2007

Í gær skrifuðu fulltrúar Hafnarfjarðardeildar Rauða kross Íslands, Hafnarfjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Reykjanesi (SMFR) undir nýjan rekstrarsamning um rekstur Lækjar athvarfs fyrir geðraskaða. Undirskriftin fór fram að viðstöddu fjölmenni í Læk.

Með þessum nýja samningi er rekstur athvarfsins tryggður til næstu þriggja ára. Hann er framlenging frá fyrri samningi þessara aðila en stofnsamningur Lækjar var gerður árið 2003.

Í nýja samningnum tekur Hafnarfjarðarbær á sig aukna þátttöku í rekstri Lækjar auk þess sem SMFR stefna að auknu framlagi á samningstímanum. Við undirritunina kom fram í máli Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra að Hafnarfjarðarbær teldi athvarfið sannarlega hafa sannað tilverurétt sinn og með opnun þess hefði þjónusta við geðfatlaða í bæjarfélaginu verið stórbætt.

Á þeim tíma sem Lækur hefur starfað hefur starfsemin vaxið og dafnað. Gestakomum hefur fjölgað gríðarlega og hefur aukningin verið um 20% á milli ára nú síðastliðin tvö ár. Í Læk er unnið mjög uppbyggilegt og fjölbreytt starf í þágu gesta. Markmiðið með starfseminni er að létta líf þeirra sem eiga við geðræn vandamál að stríða, auka færni þeirra til þátttöku í daglegu lífi og rjúfa félagslega einangrun.