Prjónahópur Reykjavíkurdeildar styrkir Hjálparsjóð Rauða kross Íslands

5. mar. 2007

Prjónahópur Reykjavíkurdeildar Rauða krossins lagði til tæpa eina milljón króna til Hjálparsjóðs Rauða kross Íslands með því að afhenda prjónavörur í L-12 Rauða krossbúðina en afrakstur búðarinnar rennur í Hjálparsjóð Rauða  krossins. Það er aukning frá árinu 2005 en þá nam andvirði sölu prjónavaranna rúmum 700 þúsund krónum.

Prjónahópurinn hefur starfað frá því í ársbyrjun 2001 og hefur frá árinu 2002 lagt til prjónavörur í L-12 búðina. Nemur salan frá byrjun rúmum þremur milljónum króna.

Að auki hefur prjónahópurinn unnið að verkefninu Föt sem framlag um nokkurra ára skeið og hefur sent frá sér mikið magn af barnafatnaði til ýmissa staða, mest þangað sem kalt er í veðri á veturna svo sem til Litháen og Pétursborgar en einnig til Malavi. Tugir pakka með treyjum, húfum, hosum, vettlingum og teppum bíða nú næstu ferðar. 

Prjónahópurinn kemur saman í húsnæði Reykjavíkurdeildar Laugavegi 120 á fimmtudagseftirmiðdögum en opið hús er kl. 13:30-16:00 og sitja þá allajafna 16 - 18 konur saman með tifandi prjóna við spjall og kaffitár. Starfsemin er öllum opin, konum og körlum á öllum aldri og öllum þjóðernum. Margar þessara sömu kvenna prjóna einnig heima og koma færandi hendi. Einnig eru dæmi um konur sem eiga ekki heimangengt en prjóna heima og senda fatnaðinn til deildarinnar.