Um 200 þúsund krónur söfnuðust á markaði til styrktar Dvöl

15. mar. 2007

Mikill fjöldi fólks lagði leið sína á fata- og nytjamarkaðinn í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildar um síðustu helgi þar sem söfnuðust alls 197.161 krónur í ferðasjóð Dvalar. Í byrjun næstu viku munu nemendurnir í MK, sem önnuðust markaðinn í samstarfi við athvarfið Dvöl, kíkja í kaffi í Dvöl til að fagna árangrinum.

Nemendurnir í MK sem skipulögðu og héldu markaðinn eru allir í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf og hafa unnið fjölbreytt verkefni fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins á þessari önn. Nemendurnir eru hæstánægðir með hvernig tókst til með markaðinn. Ánægjan er einnig mjög mikil í Dvöl þar sem gestir athvarfsins eru afar þakklátir fyrir stuðninginn.

Fjölmargir sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar á öllum aldri aðstoðuðu við markaðinn, allt frá því að flokka föt og setja markaðinn upp, útbúa bakkelsi fyrir gesti markaðarins og afgreiða viðskiptavinina. Markaðurinn varð því ánægjulegt samvinnuverkefni sjálfboðaliða Kópavogsdeildar þar sem MK-nemarnir og fulltrúar Dvalar voru í fararbroddi.

Afraksturinn af markaðnum mun auðvelda gestum Dvalar, athvarfs fyrir geðfatlaða, að safna fyrir utanlandsferð sem fyrirhuguð er snemmsumars á sólríkan stað. Ferðir eru kærkomin upplyfting fyrir marga af gestum Dvalar sem treysta sér ekki í ferðalög nema með stuðningi starfsfólks og sjálfboðaliða Dvalar.