Nemendur í Snælandsskóla prjóna til góðs

20. apr. 2007

Á miðvikudaginn afhentu nemendur á miðstigi í Snælandsskóla Kópavogsdeild teppi sem þeir hafa verið að prjóna undanfarið handa börnum í þróunarlöndum. Þeir hafa haft það sem verkefni undanfarin ár að prjóna teppi úr garnafgöngum og er það hluti af umhverfisstefnu skólans að nýta hráefni og um leið leggja öðrum lið.

Margir nemendur hafa komið að gerð teppanna, einnig nokkrir í yngri og efri bekkjum skólans. Þeir taka í prjónana á milli annarra verkefna og oft hafa margir unnið saman að hverju teppi. Nemendurnir eru enn að prjóna enda skólaárið ekki á enda. Verkefnið heldur svo áfram næsta vetur og er áhugi fyrir því að halda áfram að láta teppin nýtast í gegnum verkefni Rauða krossins í þróunarlöndum.

Teppin frá nemendunum munu komast til skila í gegnum verkefni Rauða krossins sem heitir Föt sem framlag og felur í sér að sjálfboðaliðar útbúa sendingar af handunnum prjónavörum fyrir ungabörn í neyð. Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar Rauða krossins vinna ötult starf í verkefninu Föt sem framlag og nemendurnir eru því að leggja því verkefni lið. Hægt er að heyra og lesa meira um afhendinguna á mbl.is.

Þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag eða leggja því lið á annan hátt, til dæmis með því að gefa garn, eru vinsamlega beðnir að hafa samband í síma 554 6626.